Vilhjálmur Þorsteinsson bendir á að Þór Saari sé kominn á hálan ís í tillögu um vantraust þegar hann leggur til að starfstjórn skipuðum fulltrúum allra flokka taki við.
Það er nefnilega ekki Alþingis að mynda slíka stjórn, heldur er það hlutverk forseta Íslands. Og ef vantraust verður samþykkt, þá er það í hans verkahring að rjúfa þing.
Vilhjálmur, sem sat í Stjórnlagaráði, skrifar:
„Í tillögu Þórs Saari er talað um að þing verði rofið eigi síðar en 28. febrúar 2013. Þangað til sitji starfsstjórn skipuðum fulltrúum allra flokka á þingi. Þetta tvennt stenst ekki stjórnarskrána. Þingið hefur ekki sjálft þingrofsréttinn, og ríkisstjórn verður ekki mynduð án atbeina forseta. Tillaga Þórs er því varla þingtæk í óbreyttri mynd.“
En það er merkilegt að nú segjast formenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks ætla að styðja tillöguna, í henni stendur nefnilega að vantraustið sé borið fram vegna vanefnda í stjórnarskrármálinu:
„Sú vantrauststillaga sem hér er lögð fram beinist gegn ríkisstjórninni þar sem hún fær ekki afgreitt frumvarp til stjórnarskipunarlaga byggt á þeim drögum sem samþykkt var að leggja til grundvallar nýrri stjórnarskrá og samþykkt voru með yfirgnæfandi meiri hluta í þjóðaratkvæðagreiðslu 20. október 2012. Lýðræðisumbætur sem lofað var í aðdraganda kosninga hafa ekki séð dagsins ljós og enn er við lýði ójafn kosningarréttur eftir landshlutum, ójafnrétti í fjármálum stjórnmálaflokka og skortur á persónukjöri og beinu lýðræði. Með hliðsjón af því grundvallaratriði í lýðræðisríkjum að allt vald komi frá þjóðinni virðist ríkisstjórnin ganga í berhögg við augljósan vilja þjóðarinnar um nýja stjórnarskrá.“