Landsfundur Sjálfstæðisflokksins hefst á fimmtudaginn – og ber yfirskriftina Í þágu heimilanna.
Þetta er að sumu leyti dálítið erfitt kjörorð – á tíma þegar afnám verðtryggingar er efst á baugi í umræðunni og þegar nýlega er komið fram álit frá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins sem bendir til þess að framkvæmd hennar á Íslandi sé ólögleg.
Á fundinum munu án efa koma fram háværar kröfur um að flokkurinn álykti um afnám verðtryggingarinnar. En forystu flokksins er það varla sérstaklega að skapi. Henni myndi tæplega þykja gott að mynda ríkisstjórn með slíka landsfundarályktun á bakinu – hún telur að Framsókn, líklegasti samstarfsflokkurinn, hafi gengið alltof langt í þessu efni.
Reyndar var gerð samþykkt í þessa veru á landsfundinum 2011 – sagt er að hún hafi sloppið í gegn gegn vilja flokksforystunnar.
Það fer mikil pólitík fram á landsfundi – ekki síst í nefndum. Það er líklegt að forysta flokksins muni reyna hvað hún getur til að afstýra því að sterkt verði kveðið að orði í ályktun um verðtrygginguna og skuldir heimilanna. Í því skyni þarf að valda nefndirnar og koma í veg fyrir að óvæntir hlutir gerist inni í sjálfum fundarsalnum.
En eins og áður segir – með þessa yfirskrift er eiginlega óhjákvæmilegt að þessi umræða verði tekin.