Í nýjasta tölublaði Grafarvogsblaðsins mun vera lagt til að Grafarvogsbúar kljúfi sig frá Reykjavík og stofni sérstakt sveitarfélag.
Meðal annars er kvartað yfir því að ekkert pósthús sé í Grafarvogi, engin áfengisverslun – og of fáir prestar.
Nú bý ég í miðbænum og þarf ekki að kvarta, það er pósthús hérna nálægt og áfengisverslun, sem ég á reyndar afar sjaldan erindi í. Það er líka fullt af börum og veitingahúsum sem ég geri ráð fyrir að margir Grafarvogsbúar myndu halda áfram að stunda þótt þeir tilheyrðu sjálfstæðu bæjarfélagi, mér hefur sýnst að slík starfsemi þrífist ekki vel í hverfinu hjá þeim.
Og það er nóg af prestum. Í hverfinu eru tvær lúterskar kirkjur, ein fríkirkja sem er líka lútersk, ein rómversk-kaþólsk kirkja og svo hefur rússneska rétttrúnaðarkirkjan líka starfsemi hér ekki langt frá.
Þetta er í raun svo mikið að við í 101 hjótum að teljast vel aflögufær með presta. Þeim í Grafarvogi er velkomið að fá nokkra.