Efni Kiljunnar á miðvikudagskvöld er býsna fjölbreytt.
Við fjöllum um hið mikla rit Náttúruvá á Ísland. Það er nýkomið út í ritstjórn Júlíusar Sólnes og inniheldur margháttaðan fróðleik um ógnir náttúrunnar í nútíð, fortíð og framtíð.
Við segjum frá menningartímariti sem nefnist Spássían og ræðum við ritstjóra þess, Auði Aðalsteinsdóttur og Ástu Gísladóttur.
Og við kynnum nýja þýðingu á hinum sígildu sögum um hrappinn Ugluspegil, eða Till Eulenspiegel eins og hann nefnist á þýsku. Sögurnar um Ugluspegil hafa verið til í útgáfum fyrir börn, en í þýðingu Steinars Matthíassonar eru allar sögurnar um þennan furðufugl – sumar eru nokkuð groddalegar og varla við hæfi barna.
Við fáum að heyra hverjar eru uppáhaldsbækur rithöfundarins Auðar Övu Ólafsdóttur.
Gagnrýnendur þáttarins fjalla um tvær bækur sem báðar tengjast Íslandi: Ariasman eftir Tapio Koivukari og Það var ekki ég eftir Kristof Magnússon.
Bragi talar um Theódór Friðriksson, Stein Steinarr og fleira fólk.
Á kápu hins mikla rits Náttúruvá á Íslandi má sjá málverk eftir Gunnlaug Blöndal sem sýnir reykjarmökk frá Kötlugosi 1918 – séðan frá Reykjavík. Í bókinni er líka sýnt hvernig listamenn og rithöfundar hafa túlkað náttúruhamfarir.