Fáein orð um Sverri Þórðarsson blaðamann sem er látinn, níræður að aldri.
Sverrir var einn af þeim mönnum sem settu svip á miðbæinn í Reykjavík. Hann bjó í Suðurgötu, en líka um árabil á Þórsgötu, og fór ferða sinna gangandi. Afar léttur í spori, kvikur, brosmildur og viðræðugóður.
Hann var sonur Þórðar Sveinssonar, læknis á Kleppi, og Ellenar konu hans – þeir voru afar litríkir og skemmtilegir bræður hans, ég kynntist Gunnlaugi og Agnari. Hann var alinn upp á merkilegu heimili, fræg er lýsingin þegar Þórður læknir talar latínu við bresku skáldin W.H. Auden og Louis McNeice sem voru þá í Íslandsheimsókn, en bréf hinnar dönsku móður Sverris, Ellenar, voru gefin út á bók fyrir nokkrum árum og eru merkileg lesning.
Sverrir starfaði í fimmtíu ár sem blaðamaður á Morgunblaðinu, hann lét af störfum fyrir aldurs sakir 1992.
Sjálfur sá ég Sverri á ferli í bænum frá því ég var strákur. Ég kynntist honum eftir að Ásgeir sonur hans varð vinur minn – og síðar félagi í hljómsveit. Við Sverrir tókum alltaf tal þegar við hittumst – sem var æði oft eftir hann flutti aftur í Suðurgötuna. Einhvern veginn var maður alltaf glaðari eftir að hafa hitt Sverri en áður.
Ég þakka Sverri sérlega ánægjulega samfylgd í borginni okkar – Reykjavík.