Það verða ýmsar merkilegar uppákomur á Íslandi um áramót.
Ein er sú að eftir að margar ríkisstjórnir hafa trassað að leggja fé til tækjakaupa á Landspítalanum, ætla menn að fara að útvista verkefninu til þjóðkirkjunnar.
Önnur var á ríkisráðsfundi um áramótin. Það er löng hefð að halda þessa ríkisráðsfundi, einungis formsins vegna.
En Ólafur Ragnar Grímsson er sífellt að leita leiða til að auka vald sitt – og dúkkar allt í einu upp með bókun um stjórnarskrármál á fundinum. Þetta mun vera alveg gegn hefð, en Ólafur hefur nátturlega verið ansi duglegur við að endurmóta hefðirnar í kringum embættið. Menn höfðu reyndar lengi beðið eftir því að hann léti stjórnarskrármálin til sín taka, og það gerði hann líka í áramótaávarpinu. Það er meira að segja spurning hvort hann hafi ekki farið langleiðina með að skjóta ferlið í kaf.
Það mætti kannski líka segja að þetta sýni hvað stjórnskipunin hér er sveigjanleg – eða jafnvel losaraleg.
En Ólafur fer létt með þetta – hann er fullur sjálfstrausts eftir þann stuðning sem hann fékk í forsetakosningunum. Ríkisstjórnin sem nú situr er í eilífum brösum með hann. Forsetinn er jú líka yfirlýstur anstæðingur ESB. Það gæti orðið forvitnilegt að sjá hvernig næstu ríkisstjórn gengur að eiga við hann.