Kristín Þorsteinsdóttir hefur verið blaðafulltrúi Jóns Ásgeirs Jóhannessonar og meðal annars ritað greinar í hans nafni í blöð. Kristín situr líka í stjórn 365-miðla.
Nú skrifar hún undir eigin nafni grein sem kemur í framhaldi af Vafningsdómnum og ákæru í svokölluðu Aurummáli.
Það er ekki ástæða til að elta ólar við allt sem stendur í greininni, en þó er rétt að nefna eitt sem er hrein rangfærsla.
Nefnilega þá fullyrðingu að í Elf Aquitaine málinu sem Eva Joly rannsakaði „niðri í Evrópu“ hafi hún verið að fjalla um misgerðir „rótgróinna mafíósa“.
Málið tengdist mönnum í æðstu stöðum, meðal annars stjórnendum Elf sem er risastórt olíufélag, konu eins þeirra, einum af utanríkisráðherrum Frakklands, einum helsta stjórnmálaflokki landsins, leiðtogum Afríkuríkja, stærsta banka Frakklands – málið teygði meira að segja anga sína inn í Kristilega demókrataflokkinn í Þýskalandi, flokk Helmuts Kohls.
Það var einmitt það sem var sérstakt við málið að þarna var farið að rannsaka „misgerðir“ manna í háum stöðum sem höfðu talið sig hafna yfir lög og rétt.