Tarantino er býsna hress í Django Unchained.
Eins og endranær er hann að leika sér með alls kyns klisjur, já, og minni úr b-kvikmyndum. Hann leitar ekki alltaf fanga í því sem hefur verið talið vandað og viðurkennt. Allt er dregið mjög sterkum dráttum. Áhrif frá spaghettivestrum leyna sér heldur ekki.
Og hann dansar á mörkum hins smekklega. Það hefur hann alltaf gert, síðast í Inglorious Basterds þar sem hann var að leika sér með nasista og illsku þeirra – í Django er það þrælahaldið í suðurríkjum Bandaríkjanna.
Þrælahaldararnir eru ógurlega ógeðslegir og sóðalegir – og það finnst manni alveg ágætt. Einna andstyggilegastur er þó svarti kvislingurinn, sá sem er ómissandi hjálparhella hinna hvítu við að kúga þrælana. Hann er algjörlega fyrirlitlegur, eins og fleiri í þessari mynd.
Þetta endar allt vel og hinir vondu fá makleg málagjöld, maður fagnar því í lokin. Upp úr stendur svo stórleikur austurríska leikarans, Christoph Waltz, en hann er í hlutverki hjartahreins mannaveiðara sem sífellt kemur á óvart. Það er unun að fylgjast með svipbrigðum Waltz og einstakri raddbeitingunni.