Maður finnur það sárlega fyrir þessar kosningar hvað vantar óháðan aðila sem getur tekið saman efni um stöðu þjóðarbúsins og kostnaðinn við stefnu flokkanna.
Slíkur aðili er ekki til. Fjölmiðlarnir gera þetta ekki, og þeir hafa tæplega aðstöðu til þess. Ríkisútvarpið ræktar sitt hlutleysi á nokkuð gamaldags hátt, hefðin þar fyrir kosningar er að allir fái jafnan tíma og að á engan sé sérstaklega hallað. Þetta tekst ágætlega, en það má spyrja hvort það sé nóg?
Fyrir tveimur árum kom í Silfur Egils Þóra Helgadóttir sem er sérfræðingur við Office of Budget Responsibility í London. Þessi stofnun á að meta áhrif fjárlaga og efnahagsákvarðana stjórnvalda bæði á grundvelli skammtíma og langtíma áhrifa.
Þetta er óháð stofnun, það var eitt af kosningaloforðum breska Íhaldsflokksins að setja hana upp og það var gert þegar hann komst til valda árið 2010. Nú er sagt að flokkurinn sjái stundum eftir því – niðurstöður OBR eru honum ekki alltaf að skapi.
OBR var sett á laggirnar að hollenskri fyrirmynd. Hollenska stofnunin, CPB, hefur meðal annars tekið að sér reikna út hvað efndir kosningaloforða muni kosta. Það þykir ábyrgðarleysi hjá stjórnmálaflokki þar í landi ef hann undirgengst ekki slíka skoðun.
Menn geta sagt að svona starfsemi kosti mikla peninga. En kannski gæti hún þver á móti sparað fé þegar til langs tíma er litið.
Menn gæti þá velt fyrir sér muninum á því að hafa svona batterí eða til dæmis greiningardeildir bankanna sem rýndu í efnahagslífið fyrir hrun og eru smátt og smátt að þokast út úr skammarkróknum.
Greiningardeildirnar voru í tómu rugli – og það er ekki víst að það sé búið. Í dag birtist til dæmis á mbl.is frásögn af fundi með forstöðumanni greiningardeildar Arionbanka.
Hún talar um dræman hagvöxt á Íslandi og segir að þjóðin sé föst í fyrsta gír. Það er ekki gott. En tillaga forstöðumannsins um að sett verði í fimmta gír er ekki heldur góð.
Nei, satt að segja veldur hún ugg og minnir á gömlu gleðidagana í greiningardeildunum þegar ekki þurfti að segja orð af viti.