ESB aðildin virðist ekki vera neitt sérstakt kosningamál þessa dagana.
Össur Skarphéðinsson minnir á það í dag að hægt sé að opna alla kafla í aðildarviðræðum á þessu ári.
Á meðan er hann reyndar að skrifa undir fríverslunarsamning við Kína. Helst sýnist manni á þeim samningi að hann breyti frekar litlu. Við fáum ekki kínverskt vinnuafl flæðandi yfir landið, en hugsanlega gæti aðgengi íslenskra fyrirtækja að markaði í Kína batnað eitthvað. Í augum Kínverja er þetta líklega aðallega táknræn gjörð.
ASÍ er reitt yfir samningnum – og vissulega er það rétt að mannréttindi og réttindi verkafólks eru fótum troðin í Kína. Sem mál til að sveifla upp fylgi ríkisstjórnarflokkanna er þetta ónýtt.
Aftur að ESB. Samfylkingin notar aðildarviðræðurnar reyndar dálítið í auglýsingum, en það virðist ekki skila fylgi í hús.
En það eru fáir sem taka á móti eða sýna viðbrögð við þessu.
Kannski Regnbogi Jóns Bjarnasonar og Bjarna Harðarsonar, en annars er það eiginlega bara Morgunblaðið – í ritstjórnargreinunum þar er skrifað um ESB nær daglega af einstakri árvekni, en varla minnst á það sem er helst til umræðu í kosningunum, eins og til dæmis skuldamálin og loforð Framsóknar.