Sumir segja að vandamál Sjálfstæðisflokksins sé ekki Bjarni Ben heldur Framsóknarflokkurinn.
Framsóknarflokkurinn hefur einfaldlega náð eyrum kjósenda með Icesave og loforðum um skuldaniðurfellingu.
Og hann stendur saman, það verður ekki vart við nein innanflokksátök, og formaðurinn virkar með sjálfstraust í lagi.
Það virkar ekki einu sinni þótt hinir flokkarnir hamri á því að kosningaloforð Framsóknar sé ekki hægt að efna – nú eru frekar eins og þeir dragist í átt til stefnu Framsóknarflokksins. Meira að segja Samfylkingin er farin að tala um skuldaniðurfellingar.
Kosningaloforð Framsóknarflokksins eru mjög afdráttarlaus. Þess verður krafist eftir kosningar að flokkurinn standi við þau. Hann getur ekki vikist undan því. Þeim mun stærri sem sigur flokksins verður, þeim mun afdráttarlausari verður krafan um efndir loforðanna.
Ef efndirnar verða lélegar er ljóst að flokknum verður refsað grimmilega. Fylgi stjórnmálaflokka er ekki fast í hendi þessa dagana.
Flokkurinn getur ekki myndað ríkisstjórn einn. Það er spurning hvort einhver flokkur fæst í ríkisstjórn upp á þau býti að framfylgja efnahagsstefnu Framsóknar. Það eru reyndar fleiri loforð sem vekja athygli, Vigdís Hauksdóttir var í sjónvarpinu í vikunni og af vörum hennar flugu peningar út um allt.
Það er mikið spekúlerað í pólitíkinni þessa dagana, ein hugmyndin sem heyrist er sú að Framsókn eigi af fá tækifæri til að framkvæma hugmyndir sínar án truflunar. Hún felur í sér að ef kosningasigur flokksins verði stór, eigi hann að að fá að mynda minnihlutastjórn um hugmyndirnar með hlutleysi annarra flokka sem myndu þá ekki aftra því að þær kæmust í framkvæmd.
Þetta er allavega möguleiki. Flest bendir líka til þess að hinir þrír fjórflokkanna verði svo lemstraðir eftir kosningarnar að þeir eigi lítið erindi í stjórn – hvað þá til að hjálpa Framsókn að efna heitin.