Benedikt Jóhannesson, dyggur sjálfstæðismaður og evrópusinni af Engeyjarætt, skrifar mikla hugvekju um vanda Sjálfstæðisflokksins á vefinn heimur.is. Benedikt rekur atburðarásina aftur til falls stjórnar Geirs Haarde og landsfundarins þar sem Bjarni Benediktsson tók við sem formaður, hann fjallar meðal annars um tvær skýrslur sem þá lágu fyrir, önnur um evrópumál og hin frá endurreisnarnefnd flokksins:
“Samt var það ekki nýr formaður Sjálfstæðisflokksins sem mesta athygli vakti á landsfundinum árið 2009 eins og eðlilegt hefði verið. Fyrrverandi formaður flokksins var skyndilega settur á dagskrá með klukkutíma ræðu. Þegar þetta var tilkynnt var ég staddur við hliðina á reyndum sjálfstæðismanni, vinveittum Davíð. Sá sagði: „Vonandi verður hann bara með grín, ef hann fer að skammast er fjandinn laus.“ Minnihlutastjórnin, sem þá sat með atbeina Framsóknarflokksins, hafði samþykkt lög um að reka skyldi alla seðlabankastjórana. Í kjölfarið var svo norskur maður settur yfir bankann.
Vilhjálmur Egilsson, formaður endurreisnarnefndar flokksins sem fyrr var nefnd, ræddi í pontu á landsfundinum um lítilfjörlega vaxtalækkun bankans og sagði eitthvað á þá leið að það hefði eins verið hægt að nota „gamla settið“ í þetta. Augljóslega átti þetta að vera grín, en svo vill til að ég sá seðlabankastjórann fyrrverandi einmitt þegar þessi orð féllu. Hann virtist ekki hafa fylgst með ræðunni, en þegar þetta var sagt kipptist hann við og skipti litum. Augljóslega hélt hann að þetta væri skens í sinn garð, sem ekki var, en ég veit ekkert um fyrri samskipti þeirra Vilhjálms.
Daginn eftir flutti Davíð ræðuna frægu þar sem hann veittist að Vilhjálmi, sem hefði meðal annars hefði drýgt þá dauðasynd að vera ráðinn til Samtaka atvinnulífsins af Jóni Ásgeiri, Hannesi Smárasyni og fleiri kónum sem ég man ekki hverjir voru. Allt var það rangt. Endurreisnarskýrslan, sem fjöldi manns hafði unnið að af heilindum, var afgreidd sem hrákasmíð og hann sá mjög eftir trjánum sem í hana fóru. Fólkið sem hafði unnið skýrsluna var þar með afgreitt sem asnar. Framan af var hlegið og klappað í salnum, en hrifningin minnkaði eftir því sem á leið ræðuna.
Fyrsta spurningin sem nýkjörinn formaður fékk var ekki hvort stefnan myndi breytast með nýjum mönnum heldur hvað honum fyndist um ræðu Davíðs. Bjarni fipaðist en svaraði af þeirri kurteisi sem hann hefur tamið sér. Æ síðan hefur skuggi þessarar ræðu og ræðumannsins hvílt yfir flokknum og formanninum.”
Benedikt fjallar síðan um Icesave-málið og afstöðu forystu Sjálfstæðisflokksins til Buchheit-samningsins:
“Í Icesave-málinu sýndi meirihluti þingflokks Sjálfstæðismanna lofsverða samkvæmni með sjálfum sér, þegar hann greiddi atkvæði með samkomulagi sem þingmenn flokksins höfðu komið á með því að fá Lee Buchheit, reyndan lögfræðing og samningamann, að borðinu. Framsóknarmenn, sem einnig höfðu stuðlað að aðkomu Buchheits, brast hins vegar hugrekki á lokasprettinum og það sama átti við um nokkra þingmenn Sjálfstæðisflokks.
Morgunblaðið réðst af heift gegn samkomulaginu og formanni Sjálfstæðisflokksins, með skrifum sem líklega eru einstök í sögu blaðsins. Blaðið hefur tamið sér með nýjum ritstjóra þann stíl að ráðast ávallt gegn manninum fremur en málefninu. Enginn vafi er á því að með þessu veikti blaðið mjög bæði formanninn og flokkinn. Á sama tíma og æ síðan var Framsóknarflokknum mjög hampað í blaðinu. Dropinn holar steininn og smám saman virðist hafa tekist að sannfæra marga flokksmenn um að atkvæði þeirra væri betur varið á framsókn en „svikarana“ í þingflokki Sjálfstæðisflokksins.”
Loks víkur Benedikt að rökunum sem eru færð fyrir því að kjósendur eigi að velja Sjálfstæðisflokkinn, og því sem eru að hans viti meginskýringarnar á fylgishruninu:
“Menn eigi að kjósa Sjálfstæðisflokkinn, ekki vegna þess að hann sé frjálslyndur hægri flokkur, heldur vegna þess að annars blasi vinstri stjórn við. Að vísu er öllum augljóst að eftir kosningar ætla sjálfstæðismenn að vinna með Framsóknarflokknum, þannig að hótunin um vinstri stjórn er ekki sannfærandi. Loforð framsóknar eru svo dýr að eyðsla vinstri stjórnar er hjóm eitt hjá því.
Það vekur líklega heldur ekki sérstaka hrifningu kjósenda flokksins á höfuðborgarsvæðinu að Sjálfstæðisflokkurinn bauð formanni bændasamtakanna þingsæti á Norðvesturlandi, bara ef hann vildi svo lítið að ganga í flokkinn. Ætli hann höfði til frjálslyndra hægri manna?
Meginskýringarnar á fylgishruni Sjálfstæðisflokksins eru þrjár:
1. Formaðurinn hefur sætt skipulegum og rætnum árásum innan flokks sem utan, svo illgjörnum og ósanngjörnum að þess munu fá eða engin dæmi hér á landi, a.m.k. ekki hin síðari ár.
2. Flokkurinn bar ekki gæfu til þess að koma sameinaður frá landsfundi. Þvert á móti var eins og menn legðu sig fram um að leggja fram tillögur til þess að spilla fyrir. Á síðasta degi tókst formanninum að forða fundinum frá enn frekara bulli með því að leggja til að fjölda tillagna yrði vísað frá.
3. Kjósendur telja að hið raunverulega vald liggi ekki hjá flokksforystunni. Morgunblaðið er haldið þráhyggju um Evrópusambandið og skrifar um það hvern leiðarann á fætur öðrum, þegar af nógu er að taka í afleitri stjórnarstefnu undanfarinna ára. Þegar blaðið ákvað að breyta um ritstjórnarstefnu missti það um fjórðung lesenda. Engin ástæða er til þess að ætla að hún höfði frekar til kjósenda en lesenda.”
Lesa nánar á heimur.is.