Fréttir af samningum um að lífeyrissjóðir kaupi Íslandsbanka og Arion af erlendum kröfuhöfum – og auki þannig möguleikana á að hægt sé að aflétta gjaldeyrishöftum – eru furðu óljósar.
Það hefur verið talað um þetta annað veifið síðustu vikur, en það er eins og vanti alveg staðreyndirnar. Nefndur er í þessu sambandi afsláttur af íslenskum krónum upp á 50 til jafnvel 70 prósent.
Þarna kemur að Framtakssjóður Íslands sem er fremur dularfullt fyrirbæri, hann er líkt og fjárfestingararmur lífeyrissjóða, jú, Seðlabankinn og ríkisstjórnin. Og svo fulltrúar erlendra kröfuhafa – sem eru eins og huldumenn.
En allt er þetta mjög óskýrt. Fróðlegt væri til dæmis að fá að sjá fréttamynd af fundi hjá þessum aðilum.
Framsóknarmenn hafa risið upp og sagt að þetta megi ekki gera, þarna sé fé sem eigi að nota til að lækka húsnæðisskuldir.
En þá þarf að spyrja hvort það sé framkvæmanlegt – eru peningar þarna sem hægt er að nota til þeirra þarfa?
Og svo eru fleiri spurningar – er heppilegt að lífeyrissjóðir eignist bankana, þeir eru ekki skráðir á hlutabréfamarkað og ýmislegt óljóst um framtíðarhorfur þeirra?
En eins og oft áður í tíð þessarar ríkisstjórnar vantar útskýringarnar. Fyrir vikið verður málið vandræðalegt fyrir hana. Við þurfum að vita hvað er á seyði.
Gott væri ef hagfróðir lesendur síðunnar gætu lagt orð í belg um þetta.