Fréttablaðið birtir merkilegar upplýsingar um flug á Íslandi, þær eru komnar frá Isavia.
Þar kemur í ljós að flugumferð um Keflavíkurflugvöll fer stöðugt vaxandi, það kemur ekki á óvart, það voru næstum 2,5 milljónir farþega sem höfðu viðkomu á Íslandi á síðasta ári, 300 þúsund fleiri en árið áður.
Á móti skreppur innanlandsflugið stöðugt saman. Fyrir því eru ýmsar ástæður, vegir eru betri og fólk ekur frekar og kannski spilar verðið líka inn í?
Fækkunin er að jafnaði 4 prósent á ári síðustu fimm árin, eða um næstum 200 þúsund farþega síðan 2007.
Umhugsunarefni í þessu er að fjölgun erlendra ferðamanna skilar sér ekki í innanlandsflugið. Þarna er náttúrlega visst óhagræði, ferðamaður sem kemur til Keflavíkur getur ekki farið beint áfram í innanlandsflug, til dæmis til staða eins og Ísafjarðar og Egilsstaða – hann þarf að fara til Reykjavíkur og þar í flug.
En staðreyndin er semsagt sú að það er mun fleira fólk en áður að ferðast um Ísland, en ekki í flugi.