Merkilegt er flugvallarmálið.
Það er eiginlega ekki hægt að nefna það án þess að allir fari á háa c-ið.
Kergju landsbyggðar í garð borga er að finna í mörgum löndum og hefur verið svo að minnsta kosti frá tíma Rómverja.
Hér brýst hún aðallega fram hvenær sem flugvöllurinn er nefndur á nafn – þá er eins og sé komið leyfi til að kalla borgarbúa öllum illum nöfnum.
Bak við þetta liggur einhver óljós hugmynd um að Reykvíkingar hafi gert eitthvað af sér gagnvart landsbyggðinni, skuldi henni mikið eða séu jafnvel afætur.
Þetta gerist líka þegar reynt er að impra á einhvers konar málamiðlun. Strax byrja stóryrðin að fjúka – og guð hjálpi mönnum ef þeir hafa sést á reiðhjóli eða liggja undir grun um að hafa drukkið latte.
Kannski er þetta vegna þess að málið er frekar einfalt í sniðum, og máski ekki svo yfirmáta mikilvægt þegar öllu er á botninn hvolft? Það er auðveldara að missa sig yfir slíku en stærri og flóknari málum.