Hvernig í ósköpunum getur hótel á Landsímareitnum svokölluðum truflað starfsemi Alþingis eða ógnað öryggi þess?
Spölkorn frá Alþingi er annað hótel, hið stærsta í miðbænum, Hótel Borg. Alþingi er með stærsta torg bæjarins fyrir framan sig, Austurvöll, það verður ekki hróflað við honum.
Alþingismenn koma akandi á bílum sínum og hafa aðgang að sérstöku bílastæði í Vonarstræti – nema Mörður Árnason sem kemur á hjólinu sínu.
Þeir hafa skrifstofur í nokkuð mörgum húsum í bænum – þingið hefur þanist út í margar byggingar, það er meira að segja komið í Morgunblaðshúsið.
Sök sér að alþingismenn hafi sæmilega starfsaðstöðu.
En þegar þeir vilja líka fara taka sér skipulagsvald á svæðinu sem þeir hafa lagt undir sig – ja, þá er nokkuð langt gengið.
Þingforsetinn sem gengur fram með þessum hætti er reyndar að hætta á Alþingi. Hún á afar stuttan tíma eftir í embætti.
Meðan ríkir algjör glundroði á Alþingi, annað eins hefur varla sést, forsetinn ræður ekki við neitt. Er það kannski eitthvað sem þyrfti að sinna fremur en skipulagsmálum í Miðbænum?
Þetta er heldur ekkert smásvæði sem þingforsetinn vill að Alþingi leggi undir sig, og í raun stærsti hlutinn af gamla Miðbænum:
Frá horni Lækjargötu og Vonarstrætis að Tjarnargötu, frá Tjarnargötu að Kirkjustræti, frá Kirkjustræti að Aðalstræti, frá Aðalstræti að Vallarstræti, frá Vallarstræti að Veltusundi, frá Veltusundi að Austurstræti, frá Austurstræti að Lækjargötu og frá Lækjargötu að Vonarstræti.