Hallur Magnússon skrifar hér á Eyjuna um að eftir kosningar verði hægt að mynda „miðjustjórn“ Framsóknarflokksins, Samfylkingarinnar og Bjartrar framtíðar, með Sigmund Davíð Gunnlaugsson sem forsætisráðherra. Hallur er bjartsýnn evrópusinni og telur að slík stjórn muni ljúka viðræðum við Evrópusambandið, bendir á nýja skoðanakönnun þar sem kemur fram að meirihluti kjósenda vill leiða viðræður til lykta.
Sjálfstæðismenn hamra nú á því að ef Framsókn vinni stóran kosningasigur í vor, þá fari flokkurinn í stjórn með vinstri flokkunum. Og vissulega getur Framsókn valið ef niðurstaða kosninganna verður eins og síðustu skoðanakannanir benda til.
En stjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknar er enn sem fyrr langlíklegasti kosturinn. Málefnalega ber þar minnst í milli – og sambúð þessara flokka í stjórnarandstöðu hefur verið góð. Samhljómurinn er mikill, þótt nú sé einhver meiningarmunur um verðtryggingu.
Stóra spurningin þessa dagana er hvort fylgið sem Framsókn hefur verið að taka frá Sjálfstæðisflokki skili sér að einhverju leyti aftur. Sjálfstæðismenn munu berjast, en samt virkar eins og ákveðið stemmingsleysi sé í herbúðum þeirra. Því má heldur ekki gleyma að Sjálfstæðisflokkurinn fékk ekki nema 23 prósent í síðustu þingkosningum.
Samkvæmt síðustu Gallupkönnun fá Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur hvor um sig 19 þingmenn. Flokkarnir geta myndað ríkisstjórn með 38 þingmenn, það telst vera þægilegur þingmeirihluti.
Framsókn, Samfylking og Björt framtíð gætu samkvæmt könnuninni myndað stjórn með jafnmiklum meirihluta, 19 + 10 + 9 = 38. Það er miðjustjórnin sem Hallur talar um.
Vinstri stjórn undir forsæti Framsóknar er líka möguleiki í þessari stöðu, Framsókn, Samfylking, VG, 19 + 10 + 6 = 35. Verður samt að teljast ólíklegt.
Athyglisvert er að Sjálfstæðisflokkur og Samfylking geta ekki myndað tveggja flokka stjórn ef tölurnar verða svona. 19 + 10 = 29. Ekki þingmeirihluti.
Samningsstaða Samfylkingarinnar er afar veik og í raun Sjálfstæðisflokksins líka. Hann þarf eiginlega að reiða sig á Framsókn til að komast í ríkisstjórn.