Fréttir frá Kýpur eru þær nýjustu til að skekja Evrusvæðið.
Kýpverskum bönkum verður bjargað, en það verður lagður skattur á bankainnistæður, þeir sem eiga innistæður undir 100 þúsund evrum greiða af því 6,75 prósent skatt, þeir sem eiga innistæður yfir 100 þúsund evrum greiða 9,9 prósent.
Þetta þykir harkaleg aðgerð – og hún varpar enn frekari efasemdum á evruna. Hversu örugg er hún þá? Gæti hið sama endurtekið sig í öðrum evrulöndum sem eru í efnahagsvandræðum, verður þar líka hægt að ganga með þessum hætti í bankareikninga?
Hér á Íslandi gátum við gert þetta öðruvísi, gengi krónunnar féll, innistæður töpuðu tugum prósenta af verðgildi sínu.
Eitt af því sem flækir málið á Kýpur er gríðarmikið fé sem Rússar eiga í bönkum þar. Sumt af þessu er óhreint fé, annað er sent þangað nokkurn veginn löglega vegna þess að skattar á fjármagn eru mjög lágir á eyjunni. En Kýpur hefur verið stór peningaþvottastöð fyrir Rússland.
Þetta er ein af ástæðunum fyrir því að Evrópuríki séu treg til að bjarga kýpverskum bönkum án slíkra skilyrða – sem muni ekki eiga við annars staðar í álfunni.
En hvort því er hægt að treysta, það er annað mál?
Auglýsing fyrir rússneskan banka á Kýpur.