Ný skoðanakönnun sem birtist í Fréttablaðinu staðfestir tilhneigingu sem sást í könnun MMR. Könnun Fréttablaðsins er merkileg fyrir þær sakir líka að hún er gerð eftir landsfundi Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna.
Fylgi Sjálfstæðisflokksins hrynur, þrátt fyrir landsfundinn. Raunar hljóta menn að velta því fyrir sér hvort fundurinn hafi ekki verið misheppnaður fyrst staðan er þessi. Yfirleitt geta flokkar búist við fylgisaukningu eftir samkomur sem fá svo mikla umfjöllun í fjölmiðlum.
Fylgi Vinstri grænna sveiflast aðeins upp, er aftur komið í tveggja stafa tölu. Nærtækasta skýringin eru formannsskiptin í flokknum.
Fylgi Framsóknarflokksins er ótrúlegt. Svona tölur hafa ekki sést lengi á þeim bæ. Flokknum hefur með tali sínu náð að slá tón sem er að gera sig afar vel meðal kjósenda. Er það verðtryggingin sem er svo óvinsæl?
Formannsskiptin í Samfylkingunni virðast ekki hafa nein áhrif til fylgisaukningar. Kannski er það rétt sem stundum hefur verið sagt á þessum vef að nýr formaður Samfylkingarinnar sé ekki vinsæll maður. En því má ekki gleyma að Jóhanna er enn í forsætisráðuneytinu.
Fylgi Bjartrar framtíðar skreppur saman, samkvæmt könnuninni. Í fljótu bragði virðist að það leiti til Framsóknar. Þetta sýnir að Björt framtíð toppaði hugsanlega of snemma – og að flokkurinn þarf að hafa meira fyrir atkvæðunum en virtist um tíma.
Nýjir flokkar sem hafa boðað framboð eru ekki skora – og svo sýnist manni að margir séu óráðnir.
Þrátt fyrir fylgistap Sjálfstæðisflokksins er ríkisstjórn hans og Framsóknarflokks langlíklegasta stjórnarmynstrið – með 40 þingmenn samanlagt samkvæmt könnuninni. Meðan fylgi stjórnarflokkanna er svo lágt virðist jafnvel þriggja flokka stjórn fjarlægur möguleiki.