Framsóknarflokkurinn heldur málþing á morgun til að ræða gamlan foringja sinn, Ólaf Jóhannesson – það eru liðin hundrað ár frá fæðingu hans.
Ólafur var einn aðalmaðurinn í íslenskum stjórnmálum þegar ég var barn og unglingur.
Enginn frýði honum vits, hann var einn helsti lögfræðingur landsins, en hann var tæplega vinsæll að sama skapi.
Stjórnmálin voru náttúrlega öðruvísi á þessum árum, stjórnmálamenn eru miklu nær kjósendum nú en þá var – krafan um að þeir séu ávallt reiðubúnir til svara er miklu skilyrðislausari.
Ólafur hafði órætt bros – og komst oft upp með að beita því í staðinn fyrir að svara.
Á þeim tíma var ekki hægt að mynda „vinstri“ stjórnir á Íslandi án þess að Framsókn hefði forsætisráðherrann. Meira að segja í skammlífri stjórn 1978-1979 gátu Alþýðuflokkur og Alþýðubandalag ekki unnt hvor öðrum að fá forsætisráðherrann, svo Ólafur fékk embættið, þrátt fyrir að Framsókn hefði beðið afhroð.
Ólafur var tvívegis forsætisráðherra, 1978-1979 eins og fyrr segir, en í fyrra skiptið 1971-1974. Hann var dóms-, kirkju- og viðskiptaráðherra í stjórn með Sjálfstæðisflokknum 1974-1978 og svo var hann utanríkisráðherra í stjórn Gunnars Thoroddsen 1980-1983.
Þannig var hann nánast samfleytt ráðherra í tólf ár – að undanskildum stuttum tíma að Alþýðuflokkurinn var í minnihlutastjórn. Þetta var á þeim tíma að Framsókn vann á víxl til vinstri og hægri.
Á þeim árum var umræðan í kringum vinstri stjórnir aðallega um hermálið. Það þótti til dæmis óhugsandi að Alþýðubandalagsmaður væri utanríkisráðherra – slíkt fékk ekki að gerast, jafnvel þótt flokkurinn væri í stjórn. Í stjórnarsáttmálum var yfirleitt kveðið á um brottför hersins, en þegar efndir áttu að fylgja varð yfirleitt lítið úr – Framsóknarflokkurinn passaði upp á það.
Það er ekki nýtt á Íslandi að flokkar geri eitthvað annað fyrir kosningar en þeir lofuðu að gera í ríkisstjórn.
Nafn Ólafs lifir annars helst í svonefndum Ólafslögum sem oft er vitnað í. Þetta voru miklir verðbólgutímar, sparifé brann upp, Ólafslög kváðu á um verðtryggingu fjárskuldbindinga.
Sem flokksformaður þótti Ólafur harðdrægur og enginn efaðist um hollustu hans við Sambandið sem þá var bakhjarl Framsóknarflokksins.
Það var á tíma Ólafs að svonefnd Möðruvallahreyfing hraktist úr Framsóknarflokknum. Þar var fremstur í flokki Ólafur Ragnar Grímsson – milli hans og nafna hans Jóhannessonar voru engir kærleikar.
Framsóknarmaður sem ég átti tal við ekki alls fyrir löngu sagði að þetta hefðu verið mikil mistök hjá Ólafi Jóhannessyni.
En það er kannski huggun harmi gegn að Ólafur Ragnar er kominn langleiðina í Framsókn aftur – þar á hann sér nú helstu og dyggustu fylgismennina.
Nú þegar Framsóknarmenn hafa meira en 20 prósenta fylgi er ekki úr vegi fyrir þá að stúdera Ólaf Jóhannesson. Hann vann á víxl til vinstri og hægri og það gerði Steingrímur Hermannsson líka. Halldór Ásgrímsson límdi hins vegar Framsókn upp við Sjálfstæðisflokkinn.