Ögmundur Jónasson furðar sig á viðbrögðum píratanna Birgittu Jónsdóttur og Smára McCarthy við áformum um að takmarka aðgang að klámi á internetinu.
Hann segir að Brigitta hafi lýst því yfir að hún myndi sjá til þess að slíkt frumvarp nái ekki fram að ganga – og Smári hafi talað um fasisma og geðveiki í þessu sambandi.
Þessar hugmyndir hafa verið reifaðar í erlendum fjölmiðlum – þær hafa vakið athygli á alþjóðavettvangi.
En í raun geta allir verið rólegir, jafnt Ögmundur, Birgitta og Smári, þótt þeim kunni að þykja gaman að ræða þessi mál.
Það eru innan við tveir mánuðir til kosninga, ráðherrann er augljóslega á útleið, og þótt frumvarp yrði lagt fyrir þingið er fjarska ólíklegt að tími ynnist til að ræða það, hvað þá samþykkja eða skilgreina hvaða klám telst nógu svæsið til að loka á það.