Hér er frekar lítt þekktur kafli úr íslenskri kvikmyndasögu.
Leikarinn Pierre Clémenti þvælist víða um land og rekst hér og þar á söng- og leikkonuna Nico.
Kvikmyndin heitir La cicatrice interieure – eða Innvortis ör – og er frá 1972.
Cleménti, sem var frægur fyrir að leika í myndum eftir menn eins og Bunuel, Visconti og Bertolucci, fer um Þingvelli, Skeiðarársand, siglir á báti á Jökulsárlóni, sér eldgos, væntanlega í Heklu, og svo sýnist manni vera senur frá Öskju.
Það er heilmikið í þetta lagt.
Og Nico verður á vegi hans, hún var frægust fyrir að vera í hljómsveitinni Velvet Underground. Tónlist í myndinni er einnig flutt af henni.
Leikstjórinn Philippe Garrel, var á þessum tíma kærasti Nico, hann hefur haldið áfram að gera kvikmyndir. Nico andaðist 1988 eftir reiðhjólaslys, en Clémenti dó 1999.
Íslenski kaflinn byrjar á 25.50 og stendur lengi – jú, þetta er yfirmáta listrænt og maðurinn er fjarska nakinn úti í kaldri náttúrunni. Nico er hins vegar í síðum kyrtli.
Ætli einhver muni eftir því þegar þessi mynd var tekin hér? Þetta er frá tíma þegar afar lítið var gert af kvikmyndum á Íslandi.