Álit framkvæmdastjórnar ESB á framkvæmd íslensku verðtryggingarinnar sætir miklum tíðindum.
Það byggir á því að fólk eigi að geta gert sér grein fyrir skuldbindingum sínum – hvaða fjárhæðir það tekur að láni og hver greiðslubyrðin verður.
Íslenska lagið hefur verið að fólk tekur lán og hugsar fyrst og fremst um hinar mánaðarlegu afborganir – hverjar þær verða næstu árin eftir að lán er tekið.
Við höfum kerfi verðtryggingar og greiðsludreifingar – það þýðir að skuldir hlaðast upp í framtíðinni. Verðbæturnar koma ekki fram fyrr en seint og um síðir – í stað þess að þær komi strax á lánið með tilheyrandi höggi. Ein afleiðing þessa er sú að vextir bíta mjög illa á Íslandi, það slævir alla efnahagsstjórn.
En það er svo einn galskapurinn í þessu landi að ofan á verðbæturnar er smurt mjög háum vöxtum – jafnvel allt upp í tíu prósent. Það er er hægt í skjóli fákeppninnar sem ríkir hér á bankamarkaði – því miður eru engar líkur á að það breytist.
Ef verðtryggingin ef afnumin – og þar með greiðsludreifingin – er líklegt að ein afleiðingin verði sú að fólk geti ekki keypt sér jafn dýrt húsnæði og áður. Óverðtryggð lán á Íslandi krónunnar verða með háum vöxtum – og þeir verða breytilegir og með endurskoðunarákvæðum sem tryggja hag bankanna. Eólk myndi ekki geta fleytt lánabyrðinni á undan sér inn í framtíðina. Þetta ætti að þýða stóraukna eftirspurn eftir litlum og frekar ódýrum íbúðum.
En svo er reyndar ein hlið á þessu – hvort menn myndu enda uppi með kerfi óverðtryggðra lána og greiðsludreifingar. Það myndi í raun þýða mjög svipað fyrirkomulag og undir hinni alræmdu verðtryggingu – að kostnaði væri ýtt inn í framtíðina með tilheyrandi vaxtakostnaði. Svonefnt vaxtaþak virðist virka svona, eða eins og segir í pistli eftir Má Wolfgang Mixa hagfræðing:
„Þetta leiðir þó hugann að því hvort að ekki sé einfaldlega komin önnur og jafnvel verri útgáfa af verðtryggðum lánum.“