Þórður Snær Júlíusson skrifar leiðara í Fréttablaðið í dag og tæpir þar á máli sem hefur verið til umræðu hér á vefsíðunni og í Silfri Egils.
Því að aðgangur sumra hópa að gjaldeyri er að skapa hér forréttindastétt sem getur keypt upp verðmæti, hús og fyrirtæki, á afsláttarkjörum. Í þessum hópi eru til dæmis fyrrverandi útrásarvíkingar sem náðu að koma undan peningum fyrir hrun – og þarna er líka útgerðin sem hefur í raun sjaldan haft minni ástæðu til að kvarta. Gengi krónunnar er stillt eins og henni hentar – og það er ljóst að stórútgerðarmenn eru að fjárfesta hér og þar í samfélaginu, ekki bara í greininni sjálfri, því fer fjarri.
Þórður skrifar:
„Það er hægt að segja að til séu tvær þjóðir á Íslandi. Sú fyrri býr hérlendis, þiggur laun í íslenskum krónum og lýtur gervigengi gjaldmiðilsins sem höftin búa til. Sú síðari þénar í gjaldeyri eða á erlendar eignir. Hún getur keypt í íslenskum fyrirtækjum, fasteignir eða bara fjárfest á 20 prósent lægra verði en fyrri hópurinn. Nú þegar liggur fyrir að gjaldeyrishöft verða ótímabundin mun eignamyndunarbilið á milli þessara tveggja hópa breikka. Hratt.“