Það kom verulega á óvart þegar fyrrverandi Exista/Skipta-maðurinn Brynjólfur Bjarnason var gerður að framkvæmdastjóra Framtakssjóðs Íslands. Framtakssjóðurinn er líklega valdamesti aðilinn í íslensku viðskiptalífi þessa dagana og fer með hlut í mörgum stórfyrirtækjum.
Eða kannski kom það ekkert á óvart – þetta var máski eftir öðru á Íslandi.
Úr fáu hafa íslenskir lífeyrissjóðir farið verr en viðskiptum sínum við Exista – þar sem Brynjólfur var innanbúðar hjá bræðrunum Lýði og Ágústi.
Brynjólfur kom reyndar við sem stjórnarformaður Icelandic Group. Þá sagði Sigrún Davíðsdóttir:
Brynjólfur var líka forstjóri Símans og síðar Skipta, móðurfélags hans. Það lítur út fyrir að ekki hafi neitt alvöru fé verið greitt fyrir Símann þegar hann var einkavæddur, þetta var allt upp á krít – peningarnir komu ekki síst frá lífeyrissjóðunum. Skipti voru í gríðarlegum vandræðum þegar Brynjólfur hætti þar sem forstjóri, og eru enn, og ekki bættu úr skák þungir dómar fyrir samkeppnisbrot. Þá var félag í eigu Brynjólfs einnig tekið til gjaldþrotaskipta og fékkst ekkert upp í kröfur.
En nú er Brynjólfur í þeirri furðulegu stöðu að eiga að gæta fjár lífeyrissjóðanna inni í Framtakssjóði. Þar er orðin til sú hugmynd að kaupa Íslandsbanka í félagi við MP-banka. Þar eru hæg heimatökin, stjórnarformaður MP er Þorsteinn Pálsson, gamall samherji Brynjólfs, og annar samherji, Friðrik Sophusson, er stjórnarformaður Íslandsbanka. Og svo er það Skúli Mogensen, sem er einn af eigendum MP-banka – hinn gamli félagi Bjögólfs Thors Björgólfssonar.
Raunar er ekki vitað að Þorsteinn eða Friðrik hafi neina sérstaka þekkingu á bankarekstri, en slíkt hefur ekki þvælst sérstaklega fyrir mönnum í íslenska bankakerfinu.
Um daginn kom fram í Viðskiptablaðinu að blaðamenn þess vildu reyna að ná tali af Brynjólfi vegna frétta sem þeir voru að skrifa af Framtakssjóði. Hann svaraði þeim ekki. Mér er kunnugt um að fleiri fjölmiðlar hafi fengið sömu viðtökur hjá framkvæmdastjóra Framtakssjóðs – sem er í eigu lífeyrissjóða sem fara með 64 prósent af heildareignum lífeyrissjóðanna (sem við almenningur greiðum í) – hann ansar þeim ekki.