Álit Feneyjanefndarinnar virðist fremur rugla umræðuna um stjórnarskrána en hitt.
Einna mikilvægustu athugasemdir nefndarinnar lúta nefnilega að því sem er í bæði núgildandi stjórnarskrá og tillögum Stjórnlagaráðs.
Nefnilega um forseta Íslands.
Nefndinni finnst embættið vera ruglingslegt – og það er spurt hvort ekki væri eðlilegra að þingið kysi forsetann, í ljósi þess hvað hann hefur lítil völd fremur en að þvæla þjóðinni í slíka kosningu.
Og einnig kemur fram það álit að málskotsrétturinn standist ekki skoðun og það fyrirkomulag að forsetinn vísi málum í þjóðaratkvæðagreiðslu.
Er spurt hvort ekki væri eðlilegra að lög sem forsetinn vill ekki samþykkja fari aftur til þingsins eða til sérstaks stjórnlagadómstóls.
En þetta eru hugmyndir sem virðast hvorki eiga upp á pallborðið hjá andstæðingum nýrrar stjórnarskrár eða fylgismönnum hennar – að minnsta kosti myndu fáir þora að láta í ljós þá skoðun á tíma þegar vinsældir Ólafs Ragnars Grímssonar hafa aldrei verið meiri.
En kannski er það einmitt einn gallinn við forsetaembættið, hversu það er losaralegt í forminu og bundið við smekk þeirrar persónu sem gegnir því hverju sinni.