Fræg eru þessi fleygu orð:
All political lives end in failure.
Þetta er komið úr riti eftir breska stjórnmálamanninn Enoch Powell og hljómar svo í heild sinni:
All political lives, unless they are cut off in midstream at a happy juncture, end in failure, because that is the nature of politics and of human affairs.
Það er mikið til í þessu og við getum nefnt ótal dæmi, þeir sem yfirgefa hið pólitíska svið við fagnaðarlæti eru fáir.
Á Íslandi síðustu ára getum við nefnt Davíð Oddsson, Halldór Ásgrímsson, Geir Haarde og Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur. Brotthvarf þeirra allra var mjög beiskjublandið og eftirmælin hafa ekki verið góð.
Og nú sýnist manni að Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon séu að bætast í þennan hóp.
Líf ríkisstjórnar þeirra er að fjara út. Í nokkuð langan tíma hefur hún ekki haft kraft eða fylgi til að koma hinum stóru málum sínum í gegn. Stjórnin er að vissu leyti fórnarlamb stórra áforma sem birtust í stjórnarsáttmálanum fyrir fjórum árum – í draumi hennar er fallið falið og var það kannski frá upphafi.
Nú er stjórnin að heykjast á stjórnarskrármálinu. Það er einfaldlega viðurkenning á orðnum hlut. Hún getur ekki komið málinu í gegnum þingið.
Um leið sópast fylgið frá Jóhönnum og Steingrími og flokkum þeirra. Og orð Enochs Powell virðast eiga vel við.