Furðulegt er stóra FBI málið sem hefur blossað upp hér síðustu daga. Ýmsir hafa orðið til að gera sér mat úr því, bæði leiðarahöfundar og þingmenn.
Í grunninn virðist þetta þannig vaxið að ungur maður sem hefur átt í talsverðum vandræðum með sjálfan sig fer að segja bandarískum yfirvöldum alls kyns tröllasögur.
Einn anginn af því – og hann er fjarskalega ótrúlegur – er að hafi staðið til að gera tölvuárás á Stjórnarráð Íslands.
En af því að þarna er einhver tenging við WilkiLeaks verða Bandaríkjamenn óðir og uppvægir og senda hingað agenta frá FBI. Þeir ræða lengi við unga manninn, hann fer meira að segja til Bandaríkjanna vegna þessa – eða það skilst manni.
Nú er náttúrlega ekkert sjálfsagt við að slíkir menn fái að valsa hér um. Það er líka deginum ljósara að bandarísku lögreglumennirnir hafa verið á höttunum eftir einhverju til að nota gegn WilkiLeaks. Í því samhengi skiptir Ísland sem slíkt engu máli.
Eða hvað ætluðu menn að finna í tölvuárásinni á Stjórnarráðið? Tölvupósta Jóhönnu og Hrannars?