Það færist þoka yfir atburðina á tíma hrunsins – og það eru líka margir sem hafa reynt að afbaka um hvað gerðist þessa mánuði.
Össur Skarphéðinsson skrifaði grein í Fréttablaðið þar sem hann vænir Sjálfstæðisflokkinn um stefnuleysi í utanríkismálum, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir svarar með grein í dag þar sem hún segir að Össur og Jóhanna Sigurðardóttir hafi ekki viljað leita á náðir Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.
En menn þurfa aðeins að rifja upp hvað gerðist áður. Ísland hefði líklega þurft að leita á náðir AGS miklu fyrr, eins og erlendir aðilar bentu ráðamönnum á – það virka eins og stór mistök nú. Þá hefði kannski verið hægt að komast hjá ófögnuði eins og hinum svokölluðu hryðjuverkalögum.
Í staðinn var opinberlega í gangi afneitun gagnvart stöðu þjóðarinnar – en á bak við tjöldin leituðu stjórnvöld og Seðlabankinn að lánafyrirgreiðslu út um allan heim. Það náði hámarki þegar Seðlabankinn tilkynnti einn morgun í október 2008 að við myndum fá lán að jafnvirði fjögurra milljarða evra frá Rússum.
Þetta eru hátt í 700 milljarðar króna – það er nokkuð augljóst hver hefðu verið pólitísk áhrif þessa. Íslendingar hefðu snögglega orðið mjög undirgefnir Rússum.
Undir lokin, rétt í kringum að hrunið var að gerast, var svo mikið rætt um lán frá íslensku lífeyrissjóðunum – til þess að bjarga bönkunum. Um það náðust ekki samningar.