Björt framtíð virðist hafa rofið múrinn. Óákveðnir hafa séð að flokkurinn á möguleika – og flykkjast nú til að segjast ætla að kjósa hann.
19 prósent í þjóðarpúlsi Gallup þremur mánuðum fyrir kosningar er ekki slæmt. Og þýðir að Björt framtíð er næst stærsti flokkurinn, gæti fengið á annan tug þingmanna.
Keppnin virðist vera um hvaða flokkur fær að fara í stjórn með Sjálfstæðisflokknum, Björt framtíð, Samfylkingin eða Framsókn.
Hinn möguleikinn er samstjórn þessara flokka, en meirihlutinn yrði mjög tæpur ef hann næðist – með VG, sem bíður líklega afhroð, yrði meirihlutinn kannski ögn stærri, en þeir eru örugglega ekki margir sem langar í fjögurra flokka ríkisstjórn.
En svo birtir Stöð 2 reyndar könnun sem er talsvert öðruvísi, þar er það Framsóknarflokkurinn sem tekur stökk, en Sjálfstæðisflokkurinn er í 33 prósentum. Þar er Björt framtíð aðeins lægri, en þó stærri en Samfylkingin.
Svarhlutfallið þar er þó afar lélegt, 45 prósent taka ekki afstöðu. Úrtakið hjá Gallup er stærra, en svarhlutfallið heldur ekki gott, 60 prósent.
Jóhanna Sigurðardóttir segir að stóra stríðið verði milli Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. Þau orð hafa heldur holan hljóm. Líklega verður höfuðverkefni nýs formanns Samfylkingarinnar á næstu vikum verða að stöðva fylgisflóttann til Bjartar framtíðar.