Hér eru myndir af nokkrum húsum sem stóðu í miðbæ Reykjavíkur en eru horfin. Öll brunnu þau – sum fyrir svo löngu að enginn man eftir þeim lengur.
Hér er Glasgow, sem eitt sinn var stærsta hús í Reykjavík. Það stóð efst í Grjótaþorpinu, þar sem nú er heilsugæslustöð og íbúðir fyrir aldraða. Ég man eftir að grunnurinn að húsinu stóð enn þegar ég var strákur, var notaður sem bílastæði. Glasgow brann 1903.
Hér er miðbærinn eftir brunann mikla 1915. Þá brann stórhýsið Hótel Reykjavík við Austurstræti auk húsa við Pósthússtræti og Hafnarstræti. Eyðileggingin hefur verið óskapleg.
Svona leit Hótel Reykjavík út, tíu árum áður en það brann. Þarna stendur nú húsalengjan sem veit út á Austurvöll, meðfram vestanverðu Austurstræti.
Hér eru hús í Lækjargötu sem brunnu 10. mars 1967. Iðnaðarbankinn sem brann líka stendur í miðjunni, en hann var endurbyggður. Aldrei hefur neitt komið í staðinn fyrir húsin sem eru til beggja handa bankans nema bílastæði. Ég man að lyktin eftir brunann lá yfir bænum í marga daga á eftir. Fremst á myndinni er Hafnarfjarðarstætó.
Hér er bílafloti framan við verslun Silla & Valda í Aðalstræti, líklega er myndin tekin stuttu eftir stríð. Stóra timburhúsið við hliðina brann á nýársnótt 1977, ég man eftir að hafa horft á brunann. Þar stendur nú gamla hús Ísafoldar sem var flutt úr Austurstræti.
Hér er horft yfir Lækjargötu um 1960. Það vekur athygli hversu starfsemin í götunni er blómleg. Þarna eru skrifstofur Flugfélags Íslands og Loftleiða og á milli Dairy Queen-ísbúð. Betri ís hefur aldrei fengist á Íslandi. Húsið á horninu brann 2007, en var endurreist og er nú einni hæð hærra.
Flestar myndirnar hérna eru komnar af Facebook-síðunni 101Reykjavik.