Hvaða áhrif hefur Icesavedómurinn á pólitíkina?
Í raun ætti hann að hafa þá þýðingu að kröfur um beint lýðræði styrkist. Það er þó kannski ekki að fara að gerast svo stuttu fyrir kosningar, þegar deilt er um stjórnarskrá. Og þess er reyndar að gæta að hugsanlegt er að samkvæmt tillögum stjórnlagaráðs yrði mál eins og Icesave ekki tækt í þjóðaratkvæði.
Framsókn gerir sér sjálfsagt vonir um að græða eitthvað á eindreginni andstöðu við Icesave. Ef þetta dugir ekki til að hífa fylgi Framsóknar upp, þá veit maður ekki hvað. Flokkurinn virðist reyndar búa sig undir að taka harða afstöðu gegn verðtryggingunni í kosningabaráttunni.
Sjálfstæðisflokkurinn, að undanskildum nokkrum þingmönnum, studdi síðasta Icesave-samninginn og hagnast varla mikið á málinu.
Sá samningur var reyndar alls ekki slæmur – útgjöldin sem sparast með dómi EFTA-dómstólsins eru ekki ýkja mikil miðað við tölur sem var talað um á fyrri stigum málsins. En hinn móralski sigur er auðvitað stór.
Það þrengir enn að ríkisstjórnarflokkunum – stjórnarliðar hugga sig kannski helst við að enn eru þrír mánuðir til kosningar og mögulegt að farið verði að fenna yfir Icesave.
Hvað þá með Bjarta framtíð?
Sá flokkur svífur einhvern veginn í lausu lofti og virðist vaxa eftir því sem óvinsældir ríkisstjórnarinnar aukast. Manni sýnast vera góðar líkur á ríkisstjórnarþáttöku flokksins í vor. Flokksmenn eru mátulega opnir í yfirlýsingum sínum til að þeir ættu að geta starfað með hverjum sem er, þess vegna Sjálfstæðisflokknum. En það hlýtur að koma að því að hinir flokkarnir fari að leggja til atlögu við Bjarta framtíð og krefjast nánari útlistana á stefnunni. Flokkurinn fær ekki að hirða allt þetta fylgi þegjandi og hljóðalaust.
En kannski eru allir löngu komnir ofan í gamalkunnar skotgrafir vegna þessa Icesave – skotgrafahernaðurinn hefur haldið áfram eftir að dómurinn féll – og máski breytist afar lítið.
Björt framtíð er reyndar nokkuð einörð í Evrópustefnu sinni. Evrópusinnar ættu að geta kosið flokkinn án þess að óttast að hann svíki málstað þeirra – eða hvað? Hins vegar virðist það orðið ofan á innan Sjálfstæðisflokks, Framsóknar og VG að halda skuli þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort halda eigi áfram viðræðum við ESB. Þannig losnar Sjálfstæðisflokkurinn til dæmis við að slíta beinlínis viðræðunum.
Slík þjóðaratkvæðagreiðsla getur varla orðið fyrr en næsta haust – og það gæti orðið svolitlum vandkvæðum bundið. Eða hvernig væri til dæmis fyrir nýja ríkisstjórn Sjálfstæðsflokks og Framsóknar að halda slíka þjóðaratkvæðagreiðslu, með þeim hatrömmu deilum sem myndu fylgja – og horfa svo upp á að áframhaldandi viðræður yrðu samþykktar?