Það er allt í lagi að slá varnagla vegna Icesave. Sigurinn er ánægjuefni, en þetta hefur aldrei verið einfalt mál.
Skúli Magnússon, fyrrverandi ritari EFTA-dómstólsis gerir það til dæmis. Hann segir að dómurinn hafi komið á óvart og ekki eigi að tala um sigur af einhverri léttúð. Í frétt Ríkisútvarpsins segir:
„Innstæðueigendur í Bretlandi og Hollandi hafi verið fórnarlömb í milliríkjadeilu og allt megi þetta rekja til starfsemi íslensks banka sem íslensk yfirvöld áttu að hafa eftirlit með. „Ég held að við getum ekki gengið frá þessu máli hlæjandi þó að þessi ágreiningur sé vonandi fyrir bí.“
Ólafur Þ. Stephensen skrifar leiðara í Fréttablaðið í dag þar sem hann kveður niður þjóðsöguna um að við höfum ekki greitt skuldir óreiðumanna. Það er nefnilega þvert á móti, Íslendingar hafa borgað meira fyrir óreiðumenn en aðrar þjóðir:
„Í þessu afmarkaða tilviki á það við að íslenzkur almenningur sleppur við að taka á sig byrðar. En við erum ekkert ólík öðrum Evrópuþjóðum hvað það varðar að við höfum fengið „skuldir óreiðumanna“ í hausinn í tuga milljarða vís. Það nægir að rifja upp 140 milljarða eiginfjárframlag til nýju bankanna, nærri sextíu milljarða víkjandi lán til þeirra, 270 milljarða tapaðar kröfur Seðlabankans og ríkissjóðs vegna lána til bankanna fyrir hrun og nokkra tugi milljarða vegna aðstoðar við sparisjóði og önnur smærri fjármálafyrirtæki eftir hrun.“
Svo er það Björgólfur Thor Björgólfsson sem hreykir sér hátt. Hann hefur reyndar látið eins og hann hafi ekki borið neina einustu ábyrgð á rekstri Landsbankans – þrátt fyrir að bankinn hafi dælt lánum í félög þeirra feðga. En kenningin er víst sú að þeir feðgarnir hafi ekki verið tengdir!
Rétt er það að heimtur Landsbankans gamla duga upp í kröfur sem settar voru í forgang, þ.e. Icesave. En það er ekki þar með sagt að tapið á bankanum hafi ekki verið óskaplegt, almennir hluthafar tapa sínu og þeir sem lánuðu bankanum fé fá lítið upp í sínar kröfur – það eru hundruð milljarða sem fara í súginn. Icesave málið hefur staðið í hálfan áratug og reynst Íslendingum afar þungbært, bæði hér heima og á erlendri grund.
Þannig að betur færi á smá hógværð frá auðmanninum. Í því sambandi má minna á þessa grein sem birtist fyrir einu og hálfu ári í Guardian. Og þá má spyrja, í hvað fóru allir peningarnir sem var safnað gegnum Icesave-reikningana?
Við skulum heldur ekki gleyma því að skattgreiðendur í öðrum löndum hafa þurft að bera skaðann vegna þessarar starfsemi íslenska bankans.
Það er krafist afsagnar Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar. Það er ekki óeðlilegt. Þau voru vissulega undir miklum þrýstingi, en málatilbúnaður þeirra var á köflum mjög vondur. Á tíma urðu þau nánast algjörlega viðskila við þjóðina í málinu. Eins og ég sagði í gær var eitt daprasta augnablikið þegar þau hirtu ekki einu sinni að mæta á kjörstað í þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave.
En meðal þeirra sem gera sig breiða eru Geir Haarde og Davíð Oddsson. Þá er rétt að halda því til haga að það voru þeir sem með óstjórn sinni síðustu árin fyrir hrun skildu þetta þungbæra mál eftir í fangi næstu ríkisstjórnar – og þjóðarinnar.
Icesave ætti að vera okkur áminning um að stunda heiðarlegri og gagnsærri stjórnmál.