Framfarir í læknavísindum eru kannski stærstu tíðindi síðustu alda. Við lifum lengur og betur og erum hraustari. Til eru lyf sem lækna kvilla sem áður drógu fólk til dauða. Nú finnst okkur þetta sjálfsagt mál, við getum tæplega hugsað okkur heim þar sem verður afturför í lækningum. En það er þó möguleiki.
Lífeindafræðingurinn Heather Fairhead skrifar um mikið alvörumál í Guardian, ofnotkun sýklalyfja í lækningum og landbúnaði. Þessi ofnotkun hefur staðið yfir í langan tíma, sýklalyf eru gefin við smávægilegum kvillum sem myndu læknast af sjálfu sér.
Fairhead segir að þetta sé ein helsta ógn sem nú steðji að mannfólki – landlæknir Bretlands, Sally Davis, hefur nýskeð varað við mikilli hættu af sjúkdómum og sýkingum sem svara ekki meðferð með sýklalyfjum.
Þetta leiðir til þróunar baktería sem eru ónæmar fyrir sýklalyfjum. Fyrir vikið geta alls kyns sýkingar orðið mun hættulegri en áður, miklu fleira fólk mun beinlínis deyja af sýkingum, og það verður meiri áhætta að fara inn á sjúkrastofnanir í aðgerðir, hversu litlar sem þær eru. Ógn getur líka stafað af afbrigðum sjúkdóma sem ekki er lengur hægt að lækna með sýklalyfjum, eins og til dæmis berklum og lekanda.
Í raun er aðeins tvennt til ráða, að draga úr notkun sýklalyfja og að halda áfram að þróa ný og betri sýklalyf – sem gætu jafnvel gegn ofurbakteríum. Gallinn sé þó sá að lyfjafyrirtæki hafi ekki endilega mikinn áhuga á sýklalyfjum, enda sé ekki mikið á þeim að græða miðað við sum önnur lyf, til dæmis þau sem eru gefin við lífsstílssjúkdómum svonefndum.
En ef ekkert verði að gert, sé hætta á að mikið af framförum sem hafa orðið í læknavísindum, glatist aftur.
Á það má svo benda að Vilhjálmur Ari Arason læknir hefur talsvert ritað um sýklalyfjaónæmi á stórmerkilegri bloggsíðu sinni hér á Eyjunni, meðal annars má benda á þessa grein frá því í nóvember.