Efni Kiljunnar í kvöld er býsna fjölbreytt.
Við minnumst þess að fjörutíu ár eru liðin frá Vestmannaeyjagosinu, fáum í þáttinn Sigurð Guðmundsson (Sigga frá Háeyri) en hann er höfundur nýútkomnar bókar sem nefnist Undir hraun. Sigurður missti sjálfur húsið sitt undir hraunið. Bókin hefur að geyma frásagnir hans og ljósmyndir sem margar hafa ekki birst áður.
Stasiland er ein besta bók sem hefur verið rituð um kúgunina í kommúnistaríkjum Austur-Evrópu á seinni árum kalda stríðsins. Við ræðum við höfund bókarinnar, Önnu Funder, hún er áströlsk en bók hennar hefur verið þýdd á mörg tungumál og náð metsölu. Hún kom út í kilju á íslensku í fyrra.
Við förum austur á Egilstaði á hrímköldum degi og hittum þar skáldið Svein Snorra Sveinsson.
Spennusagnahöfundurinn Sólveig Pálsdóttir segir okkur frá uppáhaldsbókum sínum, en Bragi spjallar um þann merka mann, rihöfund, hönnuð og Íslandsvin, William Morris.
En gagnrýnendur þáttarins takast á við heldur betur stóra bók, Undirstöðuna eða Atlas Shrugged eftir Ayn Rand.
Hamfarirnar í Eyjum 1973. Myndin birtist í bók Sigga á Háeyri sem nefnist Undir hraun.