Samskiptamiðlar gera heiminn minni. Vinkona mín í Istanbul setti þessar myndir á Facebook rétt áðan. Hún sýnir hvernig reynt er að slökkva mikinn eld sem logar í franska háskólanum í Galatasaray, Evrópumegin í borginni. Til þessa eru notaðir dælubátar úti á Bosporussundi, þeir dæla vatni yfir brennandi byggingarnar. Í bakgrunni má sjá stórar hótelbyggingar. Þetta er nokkuð hrikalegt.
Istanbul er borg sem reglulega brann á árum áður, enda var hún að miklu leyti byggð úr timbri. Enn er makalaust að ganga um gömlu borgarhverfin í Sultanamet, nálægt hinum stóru moskum og höll sóldánsins, og sjá öll timburhúsin.
Eldurinn var sagður vera versti óvinur borgarinnar. Stórhýsið sem nú brennur er höll frá 1871, byggð þegar hirðin í Istanbul var komin með smekk fyrir vestrænum stíl, en það er að miklu leyti úr timbri.
Á neðri myndinni má sjá eldinn og stóru brúna sem liggur yfir Bosporussund milli Evrópu og Asíu. Þetta er mikil borg og voldug, enda er eitt nafn hennar á grísku einfaldlega Polis – Borgin.