Fyrsta Kilja ársins er í sjónvarpinu í kvöld.
Aðalefni þáttarins er ferð austur á Skriðuklaustur. Þar fjöllum við um hinn merka fornleifauppgröft sem er efni bókar Steinunnar Kristjánsdóttur, en hún nefnist Sagan af klaustrinu á Skriðu.
Uppgröfturinn gefur mjög heillega mynd af klausturlífi á miðöldum, en að auki var í klaustrinu starfræktur spítali. Bein úr kirkjugarðinum við klaustrið gefa mjög merkar vísbendingar um heilsu og sjúkdómafar á árunum fyrir siðaskipti.
Ólöf Nordal, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, velur uppáhaldsbækur sínar.
Gagnrýnendur þáttarins fjalla um tvær bækur: Sjóræningjann eftir Jón Gnarr og Litla sopa eftir Huldar Breiðfjörð.
Í spjalli Braga koma meðal annars við sögu August Strindberg og Ragnar í Smára.
Horft yfir uppgröftinn á Skriðuklaustri. Þarna fékkst ótrúlega heilleg mynd af klausturlífi. Myndin er af vef menningarsetursins Skriðuklausturs.