Það er ekki nýtt að flokkar sem eru minni aðilinn í ríkisstjórnum lendi í hremmingum.
Framsókn þjáðist ákaflega í stjórninni með Sjálfstæðisflokknum undir það síðasta. Alþýðuflokkurinn þurrkaðist næstum út í viðreisn.
En maður hefur sjaldan séð flokk lenda jafn illa í því og Vinstri græna.
Flokkurinn vann mikinn kosningasigur 2009, það var ekki óvænt – VG var eini stjórnmálaflokkurinn sem bar ekki ábyrgð á hrunstjórnmálunum.
En síðan hefur helmingur þingflokksins horfið á braut. Atli Gíslason gekk úr flokknum og er að hætta, Ásmundur Einar Daðason gekk í Framsókn, Lilja Mósesdóttir gekk úr flokknum og stofnaði Samstöðu – en ákvað síðan að hætta í pólitík –, Guðfríður Lilja Grétarsdóttir er hætt og nú lýsir Jón Bjarnason því yfir að hann ætli ekki að bjóða sig aftur fram fyrir VG.
Það er eiginlega bara harði kjarninn í kringum Steingrím J. Sigfússon sem er eftir og býr sig nú undir að tapa öllu fylginu sem vannst síðast og meiru til. Dyggasti lautinant Steingríms, Björn Valur Gíslasson, er svo gott sem dottinn út af þingi.
En það er hins vegar kaldhæðnislegt að sá sem var helsti leiðtogi uppreisnarinnar gegn Steingrími lengi vel, Ögmundur Jónasson, skuli enn vera í flokknum – þegar nær allir stuðningsmenn hans eru farnir – og sé í nokkuð öruggu sæti í Suðvesturkjördæmi. Það sem hélt í Ögmund var náttúrlega að hann var gerður að innanríkisráðherra.
VG lagði mikið á sig til að mynda stjórnina með Samfylkingu árið 2009. Það var VG sem færði þar stóru fórnina með því að fallast á aðildarumsókn að ESB. Þetta hefur tætt flokkinn í sundur og líklegt að flokksmenn spyrji sig hvort það hafi verið þess virði.
Það er svo önnur kaldhæðni örlaganna að nú á síðustu mánuðum þessa ríkisstjórnarsamstarfs er umsóknin að ESB svo gott sem dauð. Þannig að líklega var þetta ferð án fyrirheits. Líf stjórnarinnar – og VG – hefði verið þægilegra án þessa ferðalags.