Fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins sem ég hitti stundum á förnum vegi fór eiginlega alltaf með sömu rulluna fyrir mig. Þingmaðurinn dauðsá eftir því að hafa samþykkt stefnu Framsóknarflokksins í heilbrigðismálum meðan flokkarnir voru saman í ríkisstjórn.
Framsókn átti heilbrigðisráðuneytið í langan tíma – þá var mótuð stefna sem byggði á mikilli miðstýringu og sameiningu sjúkrastofnana. Bygging nýs Landspítala við Hringbraut er beint framhald þessarar stefnu, enda var fyrsti yfirmaður byggingaframkvæmda þar einn helsti trúnaðarmaður flokksins í Reykjavík.
Nú virðist Framsókn ætla að snúa við blaðinu, því borist hefur fréttatilkynning frá Framsóknarfélaginu í Reykjavík þar sem byggingaáformum við Hringbraut er mótmælt – þau eru kölluð „örlagarík mistök sem stríði gegn allri skynsemi“.
Ennfremur segir að fjármagni í heilbrigðiskerfið eigi að verja í að bæta kjör og efla tækjakost, og líka að ekki megi skera niður aðra heilbrigðisþjónustu vegna „þeirrar miðstýrðu hugsunar sem þetta risaverkefni óneitanlega ber með sér“.
Það væri forvitnilegt að heyra hvað heilbrigðisráðherrar Framsóknarflokksins segja um þetta? Þau mótuðu stefnuna, ætlar flokkurinn að yfirgefa hana?