Það var djarft hjá Össuri Skarphéðinssyni að stíga upp á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna og benda á hið augljósa – að Öryggisráðið er afdankað og úr takti við nútímann.
Ég les á vefsíðum manna sem svamla í krónísku svartagalli að þessi framganga Össurar sé ekki sæmandi stjórnmálamanni frá smáþjóð.
Við eigum þá væntanlega bara að láta stórveldin um heimsmál. Vera ekkert að múðra.
En auðvitað kemur okkur þetta við eins og öðrum. Palestínumálið hefur verið eins og fleinn í holdi alþjóðasamfélagsins um margra áratuga skeið, við getum ekki horft upp á blóðbaðið í Sýrlandi án þess að okkur ofbjóði.
Þessi deilumál og önnur, sem stranda gjarnan í Öryggisráðinu, spilla friðarhorfum í heiminum – og það er okkar mál, ekki síður en stórvelda.