Í dag eru 24 dagar til þjóðaratkvæðagreiðslunnar um tillögur Stjórnlagaráðs.
Hér geisar hávær umræða um falda skýrslu sem fjallar um klúður við uppsetningu bókhaldskerfis hjá ríkinu – og að er líka mikið talað um laun skilanefndamanna.
Það er óþefur af báðum málum, því verður ekki neitað.
En þeir sem hafa áhuga á breytingum á stjórnarskránni hljóta að fara verða áhyggufullir.
Þeir sem eru að reyna að halda uppi umræðunni um hana koma margir úr röðum stjórnlagaráðsliða – það er næstum eins og þeir séu að tala við sjálfa sig eða inn í afar þröngan hóp.
Að vísu hefur opnað vefur um þjóðaratkvæðagreiðsluna, en það hlýtur að þurfa meira átak ef á að takast að rífa umræðuna upp og vekja áhuga kjósenda.
Það sem maður saknar ekki síst er meiri umræða um einstakar greinar tillagnanna: Þjóðareignina á náttúruauðlindum, fullveldisframsalið sem þær eiga að gera mögulegt, persónukjörið, jöfnun atkvæðisréttar, beina lýðræðið sem þær fela í sér – og stöðu forsetans.
(Stjórnarskrármálið verður meðal umfjöllunarefna í Silfri Egils á sunnudag.)