Þessari ljósmynd skaut upp á Facebook-síðu sem nefnist Gamlar ljósmyndir.
Hún er af prédikaranum Sigurði Sveinbjörnssyni þar sem hann stendur á Lækjartorgi og flytur eldlega ræðu, eins og hans var von og vísa.
Sigurður var stundum kallaður „Karlinn á kassanum, hann boðaði trú á torginu um langt árabil.
Myndin er sennilega tekin á fimmta áratugnum, hann er ansi fínn í tauinu karlinn, með hatt og í burstuðum skóm. Ég sé ekki hvað stendur á hinum stæðilega trékassa, en á klukkunni er auglýsing þar sem stendur „Persil í allan þvott“.
Myndin höfðar nokkuð mikið til mín sökum þess að Sigurður bjó í húsinu þar sem ég ólst upp á Ásvallagötu. Vistarvera hans þar var risherbergi sem afi minn leigði honum.
Karlinn er minnisstæður, hann var orðinn mjög fótfúinn, og sérstaklega man ég eftir því þegar hann var fluttur burt í sjúkrabíl. Ég held ég hafi ekki séð hann aftur eftir það. Hann dó 1967.
Sigurður firrtist nokkuð við þegar ég var skírður Egill. Honum fannst það vera heiðið nafn og því ótækt. Vildi heldur að ég héti Ólafur Helgi – eins og dýrlingurinn.