Það er mikið að gerast í framboðsmálunum hjá Framsókn.
Birkir Jón Jónsson er að hætta – hann er einn af þeim þingmönnum sem flestir kunna vel við. Frekar maður sátta en hitt.
Það er ekki dagur liðinn frá því Höskuldur Þórhallsson segist vilja fyrsta sætið í Norðausturkjördæmi þangað til kemur í ljós að formaðurinn Sigmundur Davíð Gunnlaugsson ætlar að stefna á það sæti.
Þá losnar fyrsta sætið í Reykjavík norður – Jónína Ben gæti tekið það. Vigdís Hauksdóttir er fyrir í Reykjavík suður.
Gunnar Bragi Sveinsson og Ásmundur Einar Daðason ætla sér báðir sæti á listanum í Norðvesturkjördæmi.
Þar glittir reyndar í mann sem gæti velgt þeim undir uggum. Þetta er Vilhjálmur Birgisson, verkalýðsforingi frá Akranesi, hann talaði á fundi hjá Framsókn í dag og í frásögn af honum segir að honum hafi verið „klappað lof í lófa“ þegar hann sagði að hann vildi “ að í framtíðinni yrði þess minnst að verðtrygging hefði verið afnumin með „Sigmundarlögum“ árið 2013″.
Í Suðurkjördæmi hafa svo verðið uppi raddir um endurkomu Guðna Ágústssonar. Þar er fyrir Sigurður Ingi Jóhannsson, sem þykir ekki sérlega öflugur, og Eygló Harðardóttir – en hún hefur leyft sér að hafa sjálfstæðar skoðanir á ýmsum málum.
Það er svo spurning hvað Siv Friðleifsdóttir gerir í Kraganum. Siv er ekki öldruð kona, aðeins fimmtug, en hefur verið á Alþingi í sautján ár. Hún hefur verið mjög á skjön við forystu flokksins í ýmsum málum og víst er að ýmsum þar þætti ágætt að losna við hana.