Ég hef lengi verið hugfanginn af Guðlaugi Friðþórssyni og hinu mikla afreki hans þegar hann bjargaði sér á sundi í ísköldum sjó um vetrarnótt, gekk síðan berfættur yfir úfið hraun þar til hann komst til byggðar í Vestmannaeyjum.
Nú hefur verið frumsýnd kvikmynd Baltasars sem fjallar um þennan atburð – hún nefnist Djúpið, gerð eftir leikriti Jóns Atla Jónassonar, en handritið er eftir þá tvo Baltasar og Jón Atla.
Það er ýmislegt viðkvæmt í þessari sögu. Guðlaugur vildi ekki vera með í gerð myndarinnar, en hann setti sig ekki upp á móti henni heldur, skilst mér. Svo er það auðvitað minningin um félaga hans sem drukknuðu þessa nótt – og voru mörgum harmdauði.
Þetta er saga sem er í senn afar sorgleg og hetjuleg.
Það er skemmst frá því að segja að í myndinni tekst mjög vel að segja söguna. Það er fjallað um atburðina af nærfærni og persónunum er sýndur fullur sómi. Um leið er þetta eins konar óður til lífsbaráttunnar í Vestmanneyjum, ekki bara sjómennskunnar, heldur er eldgosið sem var tíu árum áður í bakgrunni.
Guðlaugur heitir Gunnlaugur í myndinni. Í túlkun hins frábæra leikara Ólafs Darra Ólafssonar verður hann sérlega geðsleg og yfirlætislaus persóna – rétt eins og mér kom Guðlaugur Friðþórsson fyrir sjónir á sínum tíma. Ég held að hann megi vel við una.