Hinn stórglöggi fjölmiðlamaður Gunnar Smári Egilsson setti þessa athyglisverðu færslu inn á Facebook síðu sína. Ég tek mér það bessaleyfi að birta hana:
„Óttinn við Kínverja, gulu hættuna, sem er að skjóta rótum í umræðunni á Íslandi er byggður á ótrúlega skakkri heimsmynd; hugmynd um að Vesturlandabúar, gömlu nýlenduherrarnir og kúgararnir; séu orðnir minnimáttar í veröldinni; og eigi á hættu að kremjast undir ógnarvaldi Kína. Ef skoðum þrjár heildir; Kína, Bandaríkin og Evrópusambandið; þá eru Kínverjar 19,1% mannkyns með um 10,5% af heimsframleiðslunni, Bandaríkjamenn eru 4,5% mannkyns en með um 21,7% af framleiðslunni og Evrópumenn eru 7,6% mannkyns en með 25,2% af framleiðslunni.
Ef erlendar fjárfestingar eru skoðaðar þá fer 28% af erlendri fjárfestingu í heiminum til Evrópu en Evrópumenn standa að baki 36% af heildarfjárfestingunni (nettó +8%), 15% af fjárfestingunni fer til Bandaríkjanna en Bandaríkjamenn standa að baki 27% af fjárfestngunni (nettó +12%) og 16% af fjárfestingunni fer til Kína en Kínverjar standa að baki 3% af fjárfestingunni (nettó -13%; mínus 13%).
Nýlendutíminn er því ekki liðinn; þvert á móti; gömlu nýlenduveldin eru enn að herða tök sín á heiminum. Þegar litið er á sáralitla fjárfestingu Kínverka erlendis sem sérstaka ógn; bendir það til næstum sjúklegra hugmynda um heilagan rétt gömlu nýlenduveldanna til að drottna yfir heiminum um allar aldir. Eða óskýrar tilfinningar um að þetta ástand geti ekki varað mikið lengur; en það er þá vegna yfirgangs nýlenduþjóðanna gagnvart restinni af heiminum — ekki öfugt.“