Þegar ég var í Róm um daginn keypti í bók eftir ástralska listgagnrýnandann Robert Hughes – það var í lítilli bókabúð í Trastevere. Bókin heitir einfaldlega Róm – Hughes fjallar um borgina eilífu frá upphafi vega og fram á tíma Fellinis eins og honum er lagið með þekkingu og sögulegu innsæi, en líka mælsku, skemmtisögum og slúðri.
Ég man fyrst eftir Robert Hughes í sjónvarpsþáttum sem nefndust The Shock of the New. Þeir voru sýndir hér í sjónvarpi, fjölluðu um sögu nútímalistar. Þetta var í raun hreint skemmtiefni, Hughes hafði miklar skoðanir og var ekki feiminn við að setja þær fram. Þannig eiga góðir gagnrýnendur að vera. Samefnd bók þykir ein sú besta og aðgengilegasta sem hefur verið skrifuð um nútímalist. En Hughes er sannarlega ekki hrifinn af öllu sem hefur verið sett fram í nafni hennar – hann var sérstaklega næmur að þefa uppi loddara.
Nokkru síðar las ég bók eftir Hughes sem nefnist The Fatal Shore. Þetta er eitthvert áhrifamesta rit sem ég hef lesið. Bókin fjallar um fangaflutningana miklu frá Bretlandi til Ástralíu og afdrif fanganýlendanna sem þar voru stofnaðar. Borgir í Bretlandi voru beinlínis hreinsaðar út, götu- og glæpalýðurinn, sem lá í gindrykkju á þeim árum, var sendur til áfangastaða hinum megin á hnettinum. Ferðalagið var hryllilegt, það sem beið var fjandsamlegt land þar sem engin von var um undankomu. Hughes lýsir þessu eins og forsýningu á Gúlaginu sem síðar kom.
Þetta eru þær þrjár bækur helstar sem ég hef lesið helstar eftir Hughes. Einhvern tímann fletti ég líka bók sem nefndist The Culture of Complaint. Þar fjallar hann um Bandaríkin, landið þar sem hann settist að, og gerir hvort tveggja að draga heimsku Reaganstímans og pólitíska rétthugsun sem tröllreið vinstrinu sundur og saman í háði.
Hughes andaðist í gær, 74 ára að aldri, eftir langvinn veikindi. Hann fæddist í Ástralíu 1938, í landi sem var ekki frægt fyrir list. Í grein í Guardian er vísað í uppruna Hughes og honum líkt við Krókódíla-Dundee listheimsins, með stóran hníf í hendi og órætt bros á vör. Blaðið vitnar í Twitter-skilaboð sem fanga ágætlega ævistarf Hughes:
„RIP Robert Hughes, scourge of phony Art & absurd demagoguery, & up there with Vidal & Hitchens as one of the great talkers of our times.“