Þegar við vorum í Berlín um daginn, á leið heim í íbúð sem við leigðum okkur, kom í humátt á eftir okkur drukkinn maður, frekar smávaxinn, líklega um sextugt. Hann var að koma út af knæpunni Biermichel, það er dagdrykkjumannastaður sem er þarna á horninu. Fastagestir þar, mikið sómafólk, hjálpuðu okkur þegar við komumst ekki inn í íbúðina eitt kvöldið.
Þetta var að kvöldlagi, það var heitt í veðri.
Karlinn babblaði eitthvað um sirkus, benti á Kára, við skildum ekki hvað hann var að meina, en ég heyrði að hann sagði „barn, barn“, „Kind, Kind.“ Hann var líka í bol sem var merktur sirkus.
Daginn eftir sáum við að upp voru komnar auglýsingar hér og þar í borginni þar sem var auglýstur Cirkus Aron.
Við fórum út í búð og sáum að sirkusinn hafði sett niður tjöld sín á grasbletti rétt hjá húsinu okkar, andspænis múrminnismerkinu á Bernauer Strasse.
Sirkustjöldin virtust sérlega lítil og óhrjáleg – og við sáum heldur ekki að neinn væri að koma í sirkusinn. Við fórum að ímynda okkur að litli karlinn væri þar allt í öllu:
Sirkusstjóri, ljónatemjari, loftfimleikamaður, trúður.
En það koma engir gestir – og við vísuðum honum á bug.
Við vorum að ræða um þetta í gærkvöldi, Kári táraðist og foreldrar hans voru komnir að því að yfirbugast vegna hins dapra sirkuss.