Það segir í fréttum að bæjarstjórn Akureyrar velti því fyrir sér hvort breyta eigi Akureyri úr bæ í borg. Ég veit svosem ekki hvernig slíkt fer fram, er það ekki fyrst og fremst huglægt. Akureyri er indæll staður, mjög vinsæll hjá ferðamönnum, en vandinn er sá að íbúatalan hefur ekki vaxið sérlega mikið.
Það væri í raun frábært ef á Íslandi væru tvær alvöru borgir.
Ég hef lengi velt fyrir mér stærð Íslands og fjölda íbúanna – það hafa fleiri gert, ég man til dæmis að Þorvaldur Gylfason skrifaði stundum um þetta fyrir hrun. Þorvaldur var á þeirri skoðun, að minnsta kosti á þeim tíma, að stærðin hefði marga kosti. Ágúst Einarsson vakti nokkra hneykslun þegar hann sagði að við þyrftum að flytja inn miklu fleira fólk til að Ísland yrði byggilegt.
Íslendingar eru 320 þúsund í stóru og mjög strjálbýlu landi. Sú pólitíska afstaða er almenn að halda skuli mestöllu landinu í byggð, að minnsta kosti meðfram ströndum. Byggðastefnan ristir djúpt í þjóðarsálinni. Þetta er óhemju dýrt – og útheimtir hluti eins og jarðgöng, framhaldsskóla í hvert byggðarlag, landbúnaðarstyrki og strandveiðar til að fólkið hafi atvinnu.
Strjálbýlið laðar að ferðamenn, að því leyti er það auðlind, en á móti kemur vaxandi vandamál við að gæta þess að ferðamannastaðirnir spillist ekki.
Við reynum að halda úti menningu, þjónustu og verslun eins og miklu stærri þjóðir. Gerum það af talsverðum myndarskap. Á móti kemur að markaðurinn fyrir þetta allt er agnarsmár. Hin fremur fámennu Norðurlönd, næstu nágrannar okkar, eru 20-30 sinnum fjölmennari. Það munar ansi miklu fyrir til dæmis framleiðendur. Útrásarvíkingum er hallmælt fyrir ruglið sem þeir teymdu þjóðina út í – en bak við þetta býr hin skiljanlega löngun til að „meika það“ á stærra svæði.
Nábýlið veldur því að vinahygli og klíkumennska verður mjög fyrirferðarmikil, umræðan verður persónuleg, níðskælin og ómálefnaleg, það er mjög erfitt að ræða hugmyndir – stundum er eins og við séum jafnvel of fá til að halda úti því sem kallast civil society. Það er auðvelt að magna upp þjóðerniskennd þar sem fjandsamlegum umheimi er stillt upp gegn hinni litlu sjálfstæðu þjóð – slík orðræða hefur einkennt allan lýðveldistímann, frá deilunum um her og Nató, yfir í EES og ESB, álver og erlendar fjárfestingar.
Staðreyndin er samt sú að yfirleitt þurfum við meira á heiminum að halda, en hann á okkur.