fbpx
Sunnudagur 24.nóvember 2024
Eyjan

Kjöraðstæður?

Egill Helgason
Föstudaginn 3. ágúst 2012 16:46

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Styrmir Gunnarsson spyr hvers vegna Sjálfstæðisflokkurinn fái ekki meira fylgi – við kjöraðstæður eins og hann kallar það.

En er víst að það séu endilega kjöraðstæður fyrir flokkinn?

Ríkisstjórnin virðist vera að rétta úr kútnum í skoðanakönnunum – það er ekki um það deilt lengur að verulegur efnahagsbati er hér á landi. Atvinnuleysi hefur farið hríðminnkandi, umræða um skuldavanda heimilanna er ekki nema lítilræði miðað við það sem áður var.

Yfirleitt eru það ekki svo mörg prósent sem færast til í kosningum á Íslandi. Undantekning voru síðustu þingkosningar þar sem Sjálfstæðisflokknum var refsað grimmilega fyrir efnahagshrunið.

Spurning er hvað Sjálfstæðisflokkurinn getur boðið upp á í næstu kosningum – sem aðrir hafa ekki:

Nú er talað um niðurskurð – það er ekki líklegt til vinsælda á sama tíma og Evrópu blæðir undan niðurskurðarhnífum.

Flokkurinn getur tekið mjög harða afstöðu gegn Evrópusambandinu, en þá má ekki gleyma að innan hans eru fylgjendur ESB sem myndu una því illa. Þetta gæti jafnvel styrkt Samfylkinguna.

Flokkurinn getur boðað stóriðjuframkvæmdir, en ef kreppuástand ríkir í veröldinni gæti verið erfitt að efna þau loforð.

Flokkurinn mun væntanlega boða lækkun veiðigjalds, en það er ekki vinsælt mál, nema kannski í ákveðnum byggðum.

Flokkurinn getur boðað skattalækkanir, þær myndu þá væntanlega haldast í hendur við niðurskurð – samt sem áður mun Ísland þurfa að borga lengi af háum skuldum vegna hrunsins.

Flokkurinn er ekki líklegur til að boða rótttækar lausnir á skuldavanda heimilanna, umfram flest það sem er komið fram. Slíks er fremur að vænta frá Framsókn.

Flokkurinn virðist ekki, fremur en flestir aðrir flokkar, hafa hugmynd um hvernig á að leysa gjaldmiðilsvandann og koma Íslandi út úr gjaldeyrishöftunum.

Við vitum ekki hvernig fer með Icesavemálið – en þar má minna á að forysta Sjálfstæðisflokksins hvatti til samþykktar Icesave II.

Fremur er ólíklegt að forysta flokksins vilji fara í „hörð átök“ um innflytjendamál eins og Björn Bjarnason boðaði í pistli um daginn.

Það er semsagt ekki víst að þetta séu neinar sérstakar kjöraðstæður fyrir Sjálfstæðisflokkinn, umfram það sem er víða í Evrópu þar sem sitjandi ríkisstjórnir eru óvinsælar.

Það breytist yfirleitt fljótt, þeir sem taka við völdum eru orðnir fjarska óvinsælir innan fárra vikna.

Það gæti líka háð flokknum þegar nær dregur kosningum hversu ýmsir forystumenn og þingmenn hans eru tengdir hrunmálum – það er hætt við að margt af því verði rifjað upp í kosningabaráttu, eða jafnvel í prófkjörum. Óánægjan með þetta er ekki síst innan raða almennra kjósenda Sjálfstæðisflokksins.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 4 dögum

Arion banki sá að sér eftir að upp úr sauð á Fjármálatips

Arion banki sá að sér eftir að upp úr sauð á Fjármálatips
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Gunnar bendir á sláandi staðreynd um stýrivextina – „Hvergi í veröldinni er auður hinna ríku varinn af eins miklum ákafa“

Gunnar bendir á sláandi staðreynd um stýrivextina – „Hvergi í veröldinni er auður hinna ríku varinn af eins miklum ákafa“