Víkingur Heiðar Ólafsson píanóleikari setti þessa færslu inn á Facebook síðu sína – og gaf mér leyfi til að birta hana hér.
— — —
„Þetta er hárrétt hjá Agli, þetta mál er vægast sagt ótrúlegt – „computer says no“ er ágætis líking.
En höfum eitt á hreinu: að það væri engin geðþóttaákvörðun að miða fasteignagjöld Hörpu við rekstrarvirði hússins (eins og gildir um annan atvinnurekstur) en ekki byggingarkostnað eins og nú er. Það væri eina rökrétta ákvörðunin. Núverandi fyrirkomulag er ástæða þess að gjöld Hörpu eru svona fullkomlega absúrd í samanaburði við fasteignagjöld alls þess sem talið er upp í Fréttablaðinu.
Ef borgarstjórn óttast fordæmi gæti hún sett inn klásúlu um að mannvirki sem kosti yfir 3 milljarða í byggingu séu metin sérstaklega á grundvelli eðli þeirrar starfsemi sem þau eiga að hýsa.
Ég skil ekki í öllu því kreatíva og skemmtilega fólki sem skipar borgarstjórn Reykjavíkur, ekki frekar en fyrri daginn þegar þau taka ákvarðnir sem varða sum af kreatívari málefnum borgarinnar.
Ég veit ekki til þess að nokkurt sambærilegt menningarhús í nágrannalöndum okkar þurfi að standa straum af slíkum kostnaði til eigenda sinna. Ekki nálægt því. Til að skila milljón á dag í fasteignagjöld ofan á allan annan rekstrarkostnað hússins þyrftu í raun að vera 7faldar bókanir á við það sem nú er. Húsið er þó þéttsetið frá morgni til kvölds, og því þyrfti að bæta við eins og sjö sölum. Og sjöfalda kannski íbúafjölda á íslandi í leiðinni.
Ef reiknuð væru eðlileg gjöld og leiga, stendur tónlistin nú þegar vel undir sér og rúmlega það, aðsókn hefur farið langt fram úr bjartsýnustu áætlunum. Hægt væri að reka sterka listræna stefnu ef allar tekjur hússins færu ekki beint í þetta fasteignagjaldasvarthol. Og ráðstefnubatteríið mun að öllum líkindum standa vel undir sér líka, en það tekur að sjálfsögðu meira en eitt ár í bransa sem er skipulagður mörg ár fram í tímann.
Gleymum því ekki að það er mjög stutt síðan tekin var endanleg ákvörðun um að reisa húsið. Og heldur ekki því að það er ákveðið virði í því fólgið að eiga hús sem 1.3 milljónir hafa heimsótt á fyrsta árinu, og 250 þús komið á tónleika. Það er mjög dýrmætt fyrir Ísland.“
Víkingur á tónleikum ásamt Ashkenasy.